Stefán Skjaldarson skattrannsóknastjóri segir ljóst að ýmislegt hafi verið að varðandi hvernig bankarnir hafi staðið að framkvæmd skattalaga. „Það var ekki staðið að hlutum eins og átti að gera.“
Átta manna hópur á vegum skattrannsóknastjóra og ríkisskattstjóra hefur síðustu mánuði rannsakað hvort eitthvað í starfsemi fjármálastofnana hafi falið í sér brot á skattalögum. Stefán sagði að þessari vinnu hefði miðað vel áfram. Það hefði komið í ljós að full þörf hefði verið á að fara í þessa vinnu.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagði að borið hefði á vissri tregðu hjá fjármálastofnunum að afhenda upplýsingar í tengslum við þessa vinnu. Hann sagði ekki útilokað að skattayfirvöld yrðu að leita til dómstóla til að fá umbeðnar upplýsingar. Ríkisskattstjóraembættið er núna að efla skatteftirlit.
Sjá nánar um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.