Hagar í Kauphöllina

Stjórn Arion banka hefur ákveðið að óska eftir skráningu verslunarfyrirtækisins Haga, móðurfélag Bónuss, Hagkaupa og fleiri verslana, í Kauphöllina í samvinnu við Haga og selja hlut bankans í félaginu. Almenningi og fagfjárfestum mun standa til boða að kaupa hluti í félaginu.

Jóhannes fær að kaupa 10%

Núverandi stjórnendum Haga býðst að kaupa 15% hlut og þar af Jóhannesi Jónssyni, starfandi stjórnarformanni Haga, allt að 10% hlut á sama gengi og öðrum fjárfestum.

Segir í tilkynningu frá stjórn Arion banka að þessi leið þjóni hagsmunum bankans, viðskiptavina og starfsfólks Haga.

„Með skráningu félagsins fer það í gagnsætt og opið söluferli þar sem dreift eignarhald verður tryggt og félagið mun lúta lögboðnum kröfum um upplýsingagjöf.

Ítarleg útboðs- og skráningarlýsing, sem Kauphöllin þarf að samþykkja, ásamt áreiðanleikakönnun óháðs aðila eiga að tryggja jafnræði meðal fjárfesta. Erlendir aðilar verða fengnir til ráðgjafar um útboðsferlið," segir í fréttatilkynningu.

Segja Haga vel rekið félag

Arion banki eignaðist hlut í Högum við yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 sem átti um 95,7% í félaginu. Markmið bankans við skuldaúrlausn félagsins var og er að hámarka endurheimtur í lánasafni og tryggja rekstur Haga til framtíðar, samkvæmt tilkynningu.

Því taldi bankinn mikilvægt að vanda undirbúning málsins og taka sér nauðsynlegan tíma til að gaumgæfa alla kosti í stöðunni. Hagar er vel rekið félag sem starfrækir margar þekktar verslanir. Félagið hefur á að skipa færu starfsfólki með mikla reynslu.

Ákvörðun Arion banka er tekin í sátt og samvinnu við núverandi stjórnendur félagsins og eru þeir hlynntir skráningu þess í Kauphöllina," segir í tilkynningu.

Jóhannes áfram stjórnarformaður

Ný fimm manna stjórn verður skipuð í Högum, sem samanstendur af Guðbrandi Sigurðssyni, Ernu Gísladóttur, Steini Loga Björnssyni, Svönu Helen Björnsdóttur og Jóhannesi Jónssyni, stofnanda Bónuss, sem verður áfram starfandi stjórnarformaður Haga.

Undirbúningur Arion banka að kauphallarskráningu og sölu Haga hefst nú þegar. Gangi allt samkvæmt áætlun má gera ráð fyrir að ferlinu ljúki fljótlega upp úr miðju ári.

Kauphallarskráning og útboð verða kynnt ítarlega þegar samþykki Kauphallarinnar liggur fyrir. Stjórn bankans telur að skráning Haga hleypi nýju lífi í hlutabréfamarkaðinn hér á landi.

„Ég er ánægður með þessa lausn,” er haft eftir Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra, í tilkynningu Arion banka.

„Hagar er öflugt félag sem gegnir mikilvægu hlutverki í smásöluverslun um allt land. Bankinn hefur vandað til verka við úrlausn þessa máls og unnið í samræmi við verklagsreglur sínar. Þótt á móti hafi blásið á köflum í opinberri umræðu um þetta mál, tel ég að þessi lausn sanni gildi verklagsreglnanna og vinnubragða bankans.“

Jóhannes Jónsson
Jóhannes Jónsson Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert