Jóhanna í einkaheimsókn

Jóhanna Sigurðardóttir og José Manuel Barroso í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í …
Jóhanna Sigurðardóttir og José Manuel Barroso í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í morgun.

Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, sagði á Alþingi í dag, að heim­sókn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, for­sæt­is­ráðherra, til Brus­sel væri skil­greind sem einka­heim­sókn. Fund­ur Jó­hönnu með José Manu­el Barroso, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, var fyr­ir­hugaður fyr­ir há­degi í dag.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, sagði að í  stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar væri kveðið á um að stuðla skuli að op­inni stjórn­sýslu. Spurði hann Össur af hverju svo mik­il leynd væri yfir ferð for­sæt­is­ráðherra til Brus­sel og hvers vegna hún nýtti ekki tæki­færið til að tala við er­lenda fjöl­miðla og tala þar máli Íslands.

Össur sagði, að heim­sókn­in væri skil­greind sem einka­heim­sókn. Hún hefði verið nokk­urn tíma í und­ir­bún­ingi en tæki­færið til að hitta Barroso hefði gef­ist með litl­um fyr­ir­vara. Jó­hanna færi til að ræða við fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins um ýmis brýn mál sem tengj­ast sam­skipt­um Íslands við sam­bandið.

„Vita­skuld ber á þeim fundi á góma mál sem tengj­ast aðild­ar­um­sókn Íslands að sam­band­inu. Eins og menn hafa getað lesið í er­lend­um blöðum  hafa menn verið að leiða lík­ur að því að sú deila, sem uppi er um Ices­a­ve kunni að hafa áhrif á það... Sömu­leiðis er ég ekki í nokkr­um vafa um það, og veit það einnig, að for­sæt­is­ráðherra mun ræða það mál, sem við höf­um verið að rök­ræða hér mánuðum sam­an hér í þing­inu, það er að segja Ices­a­ve málið og lausn á því. Ráðherra mun skýra út fyr­ir fram­kvæmda­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins stöðuna í því máls og hvaða leiðir eru hugs­an­leg­ar til lausn­ar á því.

„Ég geri svo ráð fyr­ir því að ef for­sæt­is­ráðherra tel­ur að viðræður séu með þeim hætti að hægt sé að greina frá þeim þá muni hún miðla þeim upp­lýs­ing­um," sagði Össur.

Guðlaug­ur Þór sagði að málið væri al­ger­lega óskilj­an­legt. Össur lýsti heim­sókn­inni sem einka­heim­sókn en aðstoðarmaður for­sæt­is­ráðherra hefði sagt að Jó­hanna væri í Brus­sel í op­in­ber­um er­inda­gerðum. 

„Þetta er auðvitað ekki bjóðandi og ut­an­rík­is­ráðherra verður að vera skýr­ari. Af hverju er ekki verið að nota þetta tæki­færi til þess að tala við evr­ópsku press­una?" spurði hann.

Össur sagði að Jó­hanna hefði ekki gert ráð fyr­ir því fyr­ir­fram að veita  viðtöl. Sjálf­ur sagðist hafa sama hátt á þegar hann hitti starfs­bræður sína er­lend­is.

„Það skipt­ir held­ur enga máli hvort heim­sókn­in sé skil­greind sem einka­heim­sókn eða ein­hvers­kon­ar ann­ars­kon­ar heim­sókn. Það sem skipt­ir máli er hvort slík heim­sókn og viðræður beri til­ætlaðan ár­ang­ur. Það sem skipt­ir máli er að við rækt­um tengsl­in við um­heim­inn, ekki síst stór þjóðabanda­lög eins og ESB, sem eru okk­ur gríðarlega mik­il­væg, ekki aðeins vegna viðskipta­hags­muna held­ur einnig vegna aðild­ar­ferl­is­ins." 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert