Almenningur og fagfjárfestar munu geta keypt hlutabréf í Högum en stjórn Arion banka ákvað í dag að Hagar verði skráðir í Kauphöll Íslands. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion, segir þetta bestu leiðina til að hámarka virði félagsins auk þess sem þetta styrki íslenskan hlutabréfamarkað.
Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, segir að eftir að hafa vegið og metið kosti og galla hinna ýmsu leiða hafi niðurstaðan verið þessi enda þjónaði hún best hagsmunum bankans, starfsfólki Haga og fyrirtækisins sjálfs og einnig stuðla að frekari uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins.
Finnur segir að undirbúningur að þessu ferli hefjist nú þegar en það muni taka einhverja mánuði.
Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss og stjórnarformaður Haga, og stjórnendur Haga fá að kaupa samtals 15% í fyrirtækinu. „Ég vil undirstrika að það er ekki verið að gefa (Jóhannesi) þennan hlut. Hann þarf að borga fyrir þennan hlut sama verði og aðrir," sagði Finnur.