Nær óbreytt notkun á mbl.is

Notkun á vefnum mbl.is hefur nánast verið óbreytt undanfarna mánuði samkvæmt nýrri fjölmiðlakönnun Capacent. 78,2% þátttakenda heimsóttu vefinn í hverri viku á könnunartímanum frá nóvember 2009 til janúar 2010. Er það nákvæmlega sama hlutfall og mældist í könnun sem birtist í nóvember.

Hlutfall þeirra, sem heimsóttu vefinn daglega, lækkaði í 56,3% úr 58,3%. Vefurinn mbl.is er sá eini, sem mældur er í netmiðlakönnun Capacent. 

Dregur úr lestri Morgunblaðsins

Meðallestur á tölublað á Morgunblaðinu mældist 32,2% á tímabilinu frá 1. nóvember til 31. janúar samkvæmt könnun Capacent. Á sama tíma lásu 62,7% að meðaltali hvert tölublað Fréttablaðsins.

Þegar mæld var uppsöfnuð dekkun yfir vikuna mælist Morgunblaðið með 57,8% og Fréttablaðið 82,1%.

Á sama tíma fyrir ári lásu 42,7% landsmanna að jafnaði hvert tölublað Morgunblaðsins og 63,7% hvert tölublað Fréttablaðsins. Í síðustu könnun, sem birtist í nóvember, mældist meðallestur á tölublað 37,3% á Morgunblaðinu en 59,8% á Fréttablaðinu.

Samkvæmt könnuninni var meðallestur á Morgunblaðinu 36,5% á höfuðborgarsvæðinu en 30% á landsbyggðinni. Fréttablaðið mældist á höfuðborgarsvæðinu með  76,4% lestur að meðaltali en á landsbyggðinni með 42%.

Þessi tvö dagblöð eru þau einu sem taka þátt í dagblaðamælingu Capacent.

Um var að ræða samfellda dagblaða- og netmiðlamælingu í nóvember 2009 til janúar 2010. Í úrtakinu voru 4200 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára, valdir með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá.  Endanlegt úrtak var 4019 og fjöldi svara var 2414 . Nettó svarhlutfall var 60,1%.

Heimasíða Capacent

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert