Norska skrefinu fagnað

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson. mbl.is/Eggert

„Við [í stjórnarflokkunum] höfum alltaf talið að sú aðstoð sem við fáum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigi að vera óháð Icesave-málinu,“ segir Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og formaður fjárlaganefndar, um þá stefnubreytingu Norðmanna í Icesave-málinu að lán Norðurlandanna skuli óháð afgreiðslu þess, líkt og endurskoðun annarrar áætlunar AGS fyrir Ísland.

Guðbjartur segir afstöðu Norðmanna þó eina og sér ekki breyta eðli málsins. Um erfiða milliríkjadeilu sé að ræða sem brýnt sé að ljúka sem fyrst.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir tíðindin ekki koma á óvart, þau séu í samræmi við það sem framsóknarmenn fengu að heyra í tíðræddri Noregsferð.

Hann hafi átt símafund með Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, fyrir skömmu, þar sem fram hafi komið greinilegur stuðningur við málstað Íslands. Öðru máli gegni um Dani.

Vandamálið í Danmörku og Svíþjóð

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst hafa fundið í samskiptum við starfsbræður sína á Norðurlöndunum að þörf væri á betri útskýringum á málinu. Starfsbræðurnir hafi hins vegar séð, þegar málið hafi verið útskýrt fyrir þeim, að rétt og sanngjarnt sé að tengja endurskoðun hjá AGS ekki við afgreiðslu Icesave. „Ég hef aldrei viljað trúa því fyrr en í fulla hnefana að Norðurlöndin myndu ekki standa með okkur.“

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, segir tíðindin bæði gleðileg og mikilvæg. „Þetta er það sem ég alltaf þóttist vita að þegar umræðan er opnuð til almennings erlendis og hættir að vera fárra manna tal í leynd þá breytist allt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert