„Ég myndi svo sannarlega lýsa þessu sem óvenjulegu tilviki. Þeir sem sniðganga slíka fundi á ferð sinni um Brussel eru jafnan einræðisherrar frá Mið-Asíu.
Því myndi ég án efa halda að evrópskur þjóðhöfðingi eða forsætisherra myndi alla jafna mæta á fundi með blaðamönnum eftir fundi með Barroso,“ segir Toby Vogel, blaðamaður hjá European Voice, systurriti Economist.
Vogel lét aðspurður þessi orð falla eftir að ljóst varð að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra myndi ekki gefa kost á viðtali að loknum fundi með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í dag. En Georgi Gotev, ritstjóri ESB-vefjarins EurActiv, staðfesti að einn blaðamanna sinna hefði fengið þau boð að ekki yrði af slíkum fundi.
Jóhanna sagði við Morgunblaðið í fyrradag að ekki væri um leynifund að ræða og hún myndi gera grein fyrir fundinum að honum loknum.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.