Ræða við fulltrúa norsku stjórnarinnar

Þrír fulltrúar frá Attac-samtökunum á Íslandi, þeir Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Bjarni Guðbjörnsson sagnfræðingur og Gunnar Skúli Ármannsson læknir, héldu af stað til Osló í morgun og munu ræða við fulltrúa norsku ríkisstjórnarinnar á opnum fundi í dag. Jafnframt sitja fundinn fulltrúar norsku Attac-samtakanna, en þau hafa skipulagt hann ásamt með íslensku deildinni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Yfirskrift fundarins er „Á AGS að fara frá Íslandi?"

Attac-samtökin á Noregi og Íslandi eru að undirbúa sameiginlegar tillögur um hvernig hægt sé að standa að því að endurreisa efnahag Íslands án aðkomu AGS. Mikill hljómgrunnur er fyrir því í Noregi að aðstoða Ísland þannig að Íslendingar geti hafnað afarkostum AGS, Breta, Hollendinga og ESB varðandi Icesave-málið, og án þess að Ísland þurfi að fara að þvingandi skilyrðum AGS fyrir aðstoð. Fundurinn er ætlaður til að ræða möguleika á því og til að kynna tillögur Attac-samtakanna um endurreisn Íslands án aðkomu AGS.

Íslandsdeild Attac var stofnuð 30. maí 2009. Hún er hluti alþjóðlegar hreyfingar fyrir lýðræðislegu eftirliti með fjármálamörkuðunum og stofnunum þeirra. Attac varð til í Frakklandi í júní 1998. Deildir eru í 48 löndum, og nú bætist Ísland við. Af þessum 49 eru 25 Evrópulönd, 12 í Suður-Ameríku og 6 í Afríku. Félagar eru alls yfir 85.000 í heiminum. Samnefnari samtakanna og sameiginleg krafa er að öll velta á fjármagnsmörkuðum sé skattlögð og skatturinn eyrnamerktur til samfélagsverkefna. Öllum sem hafa áhuga á jákvæðri uppbyggingu þjóðfélags, þar sem fólk er í fyrirrúmi en ekki fjármagnseigendur er boðið að taka þátt í þessu starfi.

 Heimasíða Attac á Íslandi er www.attac.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka