Fulltrúum stjórnarandstöðunnar er nóg boðið, hvað varðar hringlandahátt ríkisstjórnarinnar í Icesave-málum. Ráðherrar hafi ítrekað boðað formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ásamt fulltrúa Hreyfingarinnar, á fundi þar sem reyna eigi að ná þverpólitískri samstöðu í Icesave-málinu en hverjum fundinum á fætur öðrum ljúki án þess að ríkisstjórnin sýni nokkurn lit í því að vilja taka upp samninginn við Breta og Hollendinga og semja upp á nýtt.
Hið eina sem komið hafi nýtt frá ríkisstjórninni séu hugmyndir um nýja lánsfjármögnun vegna Icesave-samninga þar sem samið verði um lægri vexti og hagstæðari kjör og þá við aðra en Hollendinga og Breta.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins talar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þannig á fundum með stjórnarandstöðunni að hægt sé að semja við Evrópusambandið um að sjóður á vegum ESB láni Íslendingum fyrir öllum höfuðstól Icesave-lánanna, þannig að rúmar 20 þúsund evrur verði greiddar til Hollendinga og Breta fyrir hvern Icesave-reikning á mun hagstæðari kjörum en um samdist við Hollendinga og Breta, þegar lánasamningurinn var gerður.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra virðist samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa litla trú á að slíkir samningar geti náðst við ESB, þrátt fyrir fyrirhugaðan fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Brussel í dag með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Fjármálaráðherra mun hafa kynnt sínar hugmyndir á fundum með stjórnarandstöðunni um að hægt væri að ná samningum við Norðmenn um lánveitingar á hagstæðari vöxtum en um samdist í Icesave og hefur gefið sterklega í skyn að innan fárra daga gæti legið fyrir að slíkir samningar við Norðmenn væru mögulegir.
Heimildum ber ekki saman um hversu miklu hagstæðari vexti þeir Össur og Steingrímur eru að ræða en þó hafa tölur á bilinu 2% upp í 3,7% verið nefndar eða umtalsvert lægri vextir en þau 5,7% sem samið var um við Hollendinga og Breta.
Samkvæmt samtölum við þingmenn stjórnarandstöðunnar í gær er margt sem hefur reynt á þolrif stjórnarandstöðunnar frá því hún hóf fundarsetur með fulltrúum ríkisstjórnarinnar um Icesave.
Stjórnarandstaðan hefur enga sannfæringu fyrir því að ríkisstjórnin vilji taka upp samninginn við Breta og Hollendinga, á meðan fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa lagt á það mikla áherslu á undanförnum fundum, að eðlilegt sé að fengnir verði þaulreyndir sérfræðingar á sviði alþjóðlegrar samningagerðar til þess að leiðbeina Íslendingum og það verði gert áður en nýtt samningstilboð verði lagt fyrir Breta og Hollendinga.
Þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson munu hafa orðið fyrir ákveðnu áfalli á fundinum í Haag í síðustu viku með
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands og Paul Myners, bankamálaráðherra Bretlands, þegar Steingrímur reifað möguleikann á nýrri lánsfjármögnun við Bretann og Hollendinginn og að höfuðstóllinn samkvæmt kröfum Breta og Hollendinga yrði greiddur upp. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar töldu að það hefði verið afar óskynsamlegt af ráðherra að sýna viðmælendum með þessum hætti á spilin sín.
Hollendingar og Bretar hafi tekið þessum boðskap ráðherrans fagnandi, en þeir hafi fram að þessum tímapunkti á fundinum, verið jákvæðir gagnvart nýjum samningaviðræðum.
Þá er bent á, að það sé einkennilega lítið samræmi á milli þess sem ráðherrann segir sjálf og þess sem aðstoðarmaður hennar, Hrannar B. Arnarsson segir, því Útvarpið hafði eftir honum í fyrradag að fundir forsætisráðherra með embættismönnum Evrópusambandsins ættu að fara leynt.