Stendur við fréttina

Thomas Vermes, blaðamaður hjá ABC Nyheter.
Thomas Vermes, blaðamaður hjá ABC Nyheter.

„Hvenær höfðuð þið spurnir af því í öllu þessu ferli að Norðmenn væru tilbúnir að lána Íslendingum áður en Icesave-deilan væri leyst?“ spyr Thomas Vermes, blaðamaður hjá ABC Nyheter, sem kveðst standa við frétt sína um stefnubreytingu norsku stjórnarinnar.

„Þeir staðfesta að Noregur hefur ekki gert kröfu um lausn Icesave-málsins en það sem þeim gremst eru þau skrif mín að þetta sé ný afstaða. Þeir halda því fram að síðarnefnda atriðið sé rangt. Það er þvættingur,“ segir Vermes og vísar til talsmanna stjórnarinnar.

Eins og rakið hefur verið ýtarlega á fréttavef Morgunblaðsins birti ABC Nyheter frétt Vermes í gærkvöldi þess efnis að norska stjórnin hefði ákveðið að sammælast um að lán hennar til Íslands yrði aftengt Icesave-málinu.

Stefnubreytingin þótti sæta miklum tíðindum enda hafði Verkamannaflokkurinn, stærsti flokkur stjórnarinnar, ekki viljað taka þessa línu en hinir stjórnarflokkarnir, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, hins vegar viljað ganga lengra í aðstoð til Íslands.

Hafnar túlkun ráðuneytisins

Á vef norska fjármálaráðuneytisins hefur verið birt yfirlýsing þar sem segir að norska stjórnin hafi ekki skilyrt lánafyrirgreiðsluna við lausn Icesave-málsins, túlkun sem Vermes ber brigður á.

Máli sínu til stuðnings vísar hann til fréttar á vef Aftenposten í gær þar sem fram kemur að Norðurlöndin muni ekki veita Íslendingum lán áður en Icesave-deilan er leyst.

Sjálfur hefur Vermes óskað eftir viðtali við fjármálaráðherra Noregs, jafnaðarmanninn Sigbjørn Johnsen, en fengið þau svör að hann þyrfti að senda spurningar skriflega á tölvupósti.

Vermes kveðst aðspurður hafa fylgst náið með umræðunni um Icesave í Noregi og að á öllum þeim tíma hafi legið ljóst fyrir að lausn málsins væri skilyrði frekari lánafyrirgreiðslu til handa Íslandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert