Aldrei hitt Hollendingana

Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins
Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins mbl.is/Brynjar Gauti

Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, hefur aldrei hitt seðlabankastjóra Hollands, Nout Wellink, né heldur neina sendinefnd á vegum hollenskra stjórnvalda vegna Icesave. Hins vegar viti hann að þáverandi forstjóri FME, Jónas Fr. Jónsson, og fleiri starfsmenn FME hittu Hollendinga að máli haustið 2008 í Amsterdam.

„Ég hef aldrei hitt þessa menn, hvorki fyrr né síðar og alls ekki vegna Icesave," segir Jón í samtali við mbl.is.

Jón og Jónas voru gestir viðskiptanefndar Alþingis í morgun og vill Jón lítið tjá sig um hvað fram kom á fundinum enda segir hann það ekki sitt hlutverk að greina frá því hvað komi fram á nefndarfundi á vegum Alþingis.

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, lét hafa eftir sér í dag að fyrrverndi forstjóri og stjórnarformaður FME, Jónas og Jón, ættu að fara utan til að svara fyrir þau ummæli sem Wellnink og fyrrum starfsmaður hollenska seðlabankans hafa haft um íslenska embættismenn. 

Jón segir að það sé óvenjulegt að nefndarformaður tjái sig um slíkt án þess að nefna það við viðkomandi einstakling. Hann vill ekki tjá sig frekar um þessi ummæli Lilju.

Wellink sagði fyrir þingnefnd hollenska þingsins í gær, að íslensk stjórnvöld hafi sagt hollenskum stjórnvöldum ósatt um stöðu íslenska bankakerfisins haustið 2008.

Hið sama sagði Arnold Schilder, fyrrum yfirmaður hollenska bankaeftirlitsins fyrir þingnefndinni fyrr í vikunni . Sagði hann að  íslenskir kollegar sínir hefðu logið að hollenska seðlabankanum um stöðu Landsbankans árið 2008.

Fram hefur komið áður, að hollenski seðlabankinn var í samskiptum við Fjármálaeftirlitið í ágúst 2008 vegna Landbankans. Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði á blaðamannafundi í október 2008, að hollenski seðlabankinn hefði fram á síðustu stundu fengið upplýsingar frá Íslandi um að allt væri í lagi með Icesave-reikningana. Hann hélt því einnig fram á sama fundi að seðlabankinn hefði fengið rangar upplýsingar um greiðsluþol íslensku bankanna frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi út septembermánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert