Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, átti í dag fund með Lene Espersen, viðskipta- og efnahagsráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Danmerkur.
Í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum segir að Bjarni hafi upplýst Espersen, sem jafnframt er formaður danska Íhaldsflokksins, um stöðu efnahagsmála á Íslandi og um hagsmuni þjóðarinnar í Icesave-málinu.
Bjarni lagði mikla áherslu á það við Espersen að mikilvægt væri fyrir Ísland að fá stuðning Dana og ríkisstjórna annars staðar á Norðurlöndunum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi, óháð Icesave-deilunni.
Bjarni Benediktsson hefur einnig upplýst Ernu Solberg , formann norska Hægriflokksins, um stöðu þessara mála, að sögn Sjálfstæðisflokksins.