Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu til að árétta að viðskiptaráðuneytið hafði engin samskipti við Fjármálaeftirlit eða Seðlabanka Hollands til að skýra frá stöðu íslensku bankanna á árinu 2008.
Nout Wellink, hollenski seðlabankastjórinn, sagði þegar hann kom fyrir rannsóknarnefnd hollenska þingsins í gærmorgun, að hann hafi rætt við kollega sinn á Íslandi og hann tjáð sér að nokkrum mánuðum áður hefði hann varað [íslensku ríkisstjórnina] við stöðu bankanna. „Þá taldi ég að logið hefði verið að okkur,“ sagði Wellink.
Þar átti hann við fund sinn með Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, í svissnesku borginni Basel 8. september 2008.
Wellink sagði áhyggjur sínar af Icesave í Hollandi hafa aukist mikið í júlí 2008. Þá þegar hafi hann krafið Fjármálaeftirlitið íslenska um upplýsingar. Hann hafi fengið þau svör 24. ágúst að bankarnir stæðust álagspróf.
Hinn 3. september hafi hann á ný spurt Fjármálaeftirlitið út í stöðu bankanna. „Svarið sem ég fékk var: frábær! Og í kjölfarið ræddi [viðmælandinn] um íslenska efnahagslífið, gríðarlega möguleika þess, um hveri, vatnið og fiskinn,“ sagði Wellink sem áður tjáði nefndinni að Íslendingar beittu ávallt því herbragði að tefja málin stæðu þeir frammi fyrir vandamálum. „Þeir gerðu það þá og þeir gera það í dag í deilunni um fjármunina sem þeir skulda okkur.“
Í seinni sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var greint frá því að 15. ágúst hefði hollenska seðlabankanum borist tölvupóstur frá íslenska Fjármálaeftirlitinu. Í honum væri lýst undrun vegna þess að hollenski seðlabankinn hefði rætt um að frysta starfsemi Landsbankans í Hollandi. Engin ástæða væri til þess því bankinn væri við góða heilsu.