Útflutningur á óunnum ísfiski hefur minnkað milli ára bæði að magni til og einnig sem hlutfall af heildarafla. Sjávarútvegsráðherra segist vera ánægður með þessa þróun.
Ráðuneytið vísar til bráðabirgðatalna Fiskistofu þar sem borin eru saman tímabilin tímabilanna september 2009 til janúar 2010 og september 2008 til janúar 2009.
Á fyrra tímabilinu voru flutt út 20.915 tonn af óunnum fiski en því seinna 14.929 tonn og er lækkunin 5.986 tonn, eða 28,6%.
Sé litið til breytinga á útflutningi á óunnum ísfiski sem hlutfall af heildarafla sömu viðmiðunartímabila, kemur í ljós að á fyrra tímabilinu var útflutningurinn 12,8% af heildarafla, en á því síðara var hann 9,4% af heildarafla. Þannig er um ríflega fjórðungslækkun að ræða.
Sjávarútvegsráðuneytið segir, að það sé stefna Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að knýja eigi á um frekari fullvinnslu afla hérlendis. Sú mikla aukning í útflutningi á óunnum afla undanfarin ár hafi ekki skapað viðunandi jafnvægi milli þessara markaða.
Í ráðuneytinu hafi, í samstarfi við Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök fiskvinnslu án útgerðar og Félag íslenskra stórkaupmanna, verið lögð umtalsverð vinna í þetta mál. Beitt hafi verið ýmsum aðgerðum og þrýstingi innan ramma núverandi laga með það að markmiði að skapa betra jafnræði í aðgengi að þessum fiski fyrir innlendar fiskvinnslur.
Ýmsar skýringar kunni að vera fyrir ofangreindri þróun aðrar en aðgerðir stjórnvalda. Megi í því sambandi nefna minni ýsuafla og aðrar breytingar í heildaraflamarki. Þá hafi samkeppnishæfni íslenskrar fiskvinnslu batnað, m.a. vegna veikingar íslensku krónunnar, með tilheyrandi aukinni atvinnusköpun fyrir landsmenn.
Segir ráðuneytið, að vísbendingar séu um að störfum við fiskvinnslu hafi fjölgað eitthvað undanfarin misseri samkvæmt úrtakskönnunum Hagstofu Íslands.