Grunaður um fleiri kynferðisbrot

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum, sæti áfram gæsluvarðhaldi  þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til 3. mars. Ný kæra á hendur manninum vegna kynferðisbrots barst lögreglu í vikunni.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að á miðvikudag hafi verið gefin út ákæra á hendur manninum vegna 5 auðgunarbrota, 2 fíkniefnabrota og aksturs undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn hefur játað þessi brot að mestu. Hann hefur einnig játað þjófnað og eignarspjöll á Akureyri  í nóvember.

Embætti ríkissaksóknara er með þrjú mál til meðferðar þar sem maðurinn er grunaður um gróf  kynferðisbrot, auk máls sem varðar vörslu á barnaklámi. Brotin beindust gegn ungum stúlkum á aldrinum 13 til 16 ára og segir lögregla að þau kunni að varða allt að 16 ára fangelsi.

 Fram kemur í úrskurðinum, að lögreglu hafi á miðvikudag  borist ný kæra á hendur manninum vegna kynferðisbrots sem á að hafa átt sér stað um mitt ár 2009 og sé svipaðs eðlis og þau mál sem nú séu til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Rannsókn þess máls sé á frumstigi.

Maðurinn hefur leigt herbergi í Reykjavík, er án atvinnu en hefur fengið fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum. Segir lögregla að svo virðist sem hann hafi framfleytt sér með afbrotum.

Kynntist stúlkunum á Facebook

Maðurinn var kærður 29. desember fyrir kynferðisbrot  gegn 14 ára   stúlku, sem var framið 22. desember. Sagðist stúlkan hafa hitt manninn eftir að hann sendi henni SMS skilaboð og beðið hana að koma að hitta sig. Hún fór heim til mannsins þar sem hann misþyrmdi henni kynferðislega. Stúlkan sagðist hafa sagt manninum hvað hún væri gömul og einnig væru þær upplýsingar á Facebook-síðu hennar.

Maðurinn neitaði sök og sagðist ekkert kannast við stúlkuna en lögregla segir að vitni og sönnunargögn sýni að það sé ósatt. 

Áður, eða í nóvember, var lögð fram kæra fyrir hönd 16 ára stúlku sem sagði manninn hafa brotið kynferðislega gegn sér. Stúlkan sagðist hafa kynnst manninum á Facebook-vefnum. Í skýrslu sem tekin var af stúlkunni komu fram sláandi lýsingar á afar grófum kynmökum sem hún sagðist hafa verið látin framkvæma gegn vilja sínum.

Í desember var lögð fram kæra á hendur manninum egna brota gegn 13 ára stúlku, sem sagðist hafa kynnst manninum Facebook-síðunni og hitt hann í kjölfarið. Maðurinn hefði a.m.k þrisvar sinnum haft við hana samræði. Stúlkan vildi síðar draga framburð sinn til baka og maðurinn neitaði alfarið sök.

Margar myndir fundust í tölvu mannsins af ungum hálfnöktum stúlkum. Auk þess hafi fundist hreyfimyndir sem hafi að geyma barnaklám þar sem sjá megi stúlkubörn beitt grófu kynferðisofbeldi.

Lögreglan segir að það endurspegli það aukinn ásetning mannsins, að hann lét ekki segjast og hafi ekki liðið nema vika frá því að hann var yfirheyrður vegna meints kynferðisbrots gegn ungri stúlku og þar til hann hafði sett sig í samband við þá næstu. 

Þá kemur fram í greinargerðum lögreglu, að vísbendingar séu um að maðurinn hafi afbrigðilegar kynhvatir og augjóst að hann hafi ekki taumhald á þeim. Kunni að vera að fíkniefnaneysla hans hafi þar einhver áhrif.  Hafi verið tekin sú ákvörðun að maðurinn gangist undir sálfræðimat af þessu tilefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert