Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Árni Þór Sigurðsson alþingismaður segjast ekki hafa haft innherjaupplýsingar þegar þeir seldu stofnfjárhluti í SPRON skömmu áður en fyrirtækið var skráð á markað.
„Ég hafði engar upplýsingar um SPRON, eða nokkra aðra bankastofnun, sem ekki var á vitorði allra í gegnum fjölmiðla,“ segir Össur.
Ástæða þess að Össur seldi hlutinn hafi verið sú að hann taldi það ekki samrýmast setu í ráðherrastól að eiga í SPRON. Því segist hann hafa selt skömmu eftir að hann varð iðnaðaráðherra í maí 2007. „Ég hafði alltaf trú á þessari stofnun og taldi að þetta væri mín bankastofnun,“ segir Össur.
Hagnaður Össurar af viðskiptunum nam um 30 milljónum, þar sem hann keypti í nokkrum lotum fyrir samanlagt 33 milljónir, en seldi fyrir 63 milljónir. Bréfin keypti hann fyrir lán sem hann segist hafa greitt.
Stofnfjárhlutina hefur Össur átt síðan seint á níunda áratugnum þegar hann var aðstoðarforstjóri Reykvískrar tryggingar. „Við áttum í miklum og góðum samskiptum við SPRON og var mér þá boðið að gerast stofnfjáreigandi.“
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, segir pólitískar ástæður einnig hafa ráðið því að hann seldi stofnfjárbréf sín í SPRON stuttu áður en fyrirtækið var skráð á markað. Hann segir að alveg frá því hann sat í stjórn sparisjóðsins, árin 1998 til 2004, hafi hann verið mótfallinn því að sjóðurinn væri skráður á markað. „Ég var alltaf þeirrar skoðunar að sparisjóðirnir ættu að vera sparisjóðir, en ekki einhver útrásar-fjármálafyrirtæki í hlutafélagaformi.“
Þegar stjórn sjóðsins tók ákvörðun um að skrá hann á markað ákvað Árni Þór því að losa sig við megnið af sínum hlut, um 1,3 milljónir að nafnvirði. Hann hafi ekki haft neinar upplýsingar innan úr SPRON eftir að hann fór úr stjórninni.
Þórarinn V. Þórarinsson hæstaréttarlögmaður segir ýmislegt gruggugt við sölu stofnfjárhluta í SPRON. Þó nokkrir sem hafi keypt stofnfjárbréf eftir að ákveðið var á stjórnarfundi SPRON að skrá félagið á markað, en áður en lokað var fyrir viðskipti með stofnfjárbréf, hafi haft samband við sig vegna gruns um að þeir hafi keypt bréf stjórnenda og stjórnarmanna á óeðlilega háu verði.