Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að vísa beri frá dómi máli á hendur manni, sem ákærður var fyrir að slá lögreglukonu hnefahögg í andlitið. Segja dómstólarnir að lögerglustjórinn á Akureyri hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn í málinu þar sem það snerti undirmann hans.
Í úrskurði héraðsdóms segir m.a. að ástæða hefði verið að taka lögregluskýrslu af lögreglukonunni, sem varð fyrir högginu, og öðrum lögreglumanni en það hafi ekki verið gert.
Eins og atvikum var háttað var jafnframt ástæða til að fela öðru lögregluembætti að fara með lögreglurannsóknina svo fyllsta hlutleysis væri gætt við rannsókn málsins. (...) Þess í stað var gefin út ákæra á grundvelli ófullnægjandi lögreglurannsóknar, svo sem verknaðarlýsing í ákæru ber skýrlega með sér. Samkvæmt framansögðu ber að vísa máli þessu frá dómi," segir í niðurstöðu héraðsdóms.
Hæstiréttur bætir við, að samkvæmt lögreglulögum megi lögreglustjórar og aðrir þeir, sem fari með lögregluvald, ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Geti starfsmenn þess lögreglustjóra, sem er vanhæfur, ekki rannsakað mál nema rannsókn fari fram undir stjórn annars lögreglustjóra.