Fréttaskýring: Meiri afli og lengri tími til strandveiða

mbl.is/Þorkell

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra kynnti frumvarp til laga um strandveiðar á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag. Þingflokkar stjórnarinnar hafa samþykkt það. Samkvæmt því verða aflaheimildir auknar, veiðitímabilið lengt og strandveiðar verða ekki aðeins bráðabirgðaákvæði í lögum um stjórn fiskveiða.

Strandveiðar með handfæri voru fyrst leyfðar í fyrrasumar og reru fyrstu bátarnir 28. júní eftir að reglugerð um veiðarnar hafði verið gefin út 25. júní. Nú verður heimilt að hefja veiðarnar 1. maí og lýkur tímabilinu í lok ágúst.

Í fyrra var heimilt að veiða 3.995 tonn af þorski, óslægðum. Bátarnir komu með 3.452 tonn af þorski að landi og 650 tonn af öðrum afla, mest ufsa. Nú verður heimilt að veiða sex þúsund tonn af óslægðum botnfiski, en reiknað er með að þorskur geti orðið um fimm þúsund tonn af þessum afla í stað 3.995 tonna eins og heimildin kvað á um í fyrra, en ufsi og aðrar botnfisktegundir um eitt þúsund tonn.

Veiðisvæðum verður áfram skipt upp í fjögur hólf og með því að byrja 1. maí ættu möguleikar suðursvæðis að aukast því þar er alla jafna meiri fiskgengd í maímánuði en þegar kemur fram á sumarið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra hafi reglugerðarheimild við framkvæmd veiðanna m.a. til að ákveða veiði innan svæða og tímabila. Þannig væri t.d. heimilt að leyfa meiri afla á suðursvæði í upphafi veiðitímabilsins. Eins og áður þurfa veiðimenn að velja svæði í upphafi og geta ekki fært sig eftir það á milli svæða.

Meðal breytinga í frumvarpinu er að hver umsækjandi getur aðeins fengið leyfi á eitt skip. Sjómenn geta hætt veiðum í krókakerfinu og haldið til strandveiða, en þeir komast hins vegar ekki til baka aftur í krókakerfið fyrr en að strandveiðitíma loknum.

Takmarkanir vegna leigu

Nýtt ákvæði er í frumvarpinu þess efnis að sjómenn geta ekki fengið leyfi ef þeir eru búnir að leigja meira frá sér en þeir hafa tekið til sín. Þetta ákvæði kemur hins vegar ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári þar sem talið er að það feli í sér afturvirkni og of langt sé liðið á fiskveiðiárið til að það standist. Samkvæmt ákvæðinu verður gengið frá því um leið og sjómenn hafa fengið strandveiðileyfi að möguleikar lokist á að þeir geti leigt frá sér kvóta.

Í fyrrasumar kvað reglugerð á um að heimilt væri að veiða 800 kíló á hverjum degi, en núna er þessu ákvæði breytt og miðað verður við 650 kíló af þorskígildum. Þetta er gert til að minnka brottkast og hugsað sem hvati til að koma með allan afla að landi. Miðað er við að þrjú kíló af ufsa séu í einu þorskígildiskílói og er reiknað með að hámarksdagsafli geti verið svipaður og áður. Skylt verður að landa öllum afla í lok veiðiferðar.

Loks er samhliða þessu frumvarpi gerð tillaga um breytingu á lögum um veiðieftirlit, sem felur í sér að auk 17.500 króna leyfisgjalds, greiði sjómenn sérstakt 50 þúsund kr. gjald. Það á að renna beint til löndunarhafna báta sem hafa strandveiðileyfi og er ætlað til að styrkja rekstur þeirra almennt.

Mikils virði

TALSVERÐ fríðindi felast í leyfum til strandveiða þar sem þau eru utan aflamarks. Samkvæmt tilboðum sem voru á heimasíðum kvótamiðlara í vikunni myndi leiga á 50 tonnum af aflamarki í þorski kosta tæplega 14 milljónir króna í stóra kerfinu og 12,3 milljónir í krókaaflamarkskerfinu. Hvort leiguverð á eftir að hækka eða lækka í sumar er ómögulegt að spá fyrir um.

Námskeið um meðferð afla

Landssamband smábátaeigenda hyggst í samvinnu við Matís skipuleggja námskeið í meðferð afla fyrir strandveiðisjómenn áður en veiðarnar hefjast í vor. Sótt hefur verið um styrk til AVS-sjóðsins til að taka þátt í kostnaði. Fyrirhugað er að þessi námskeið verði haldin víða um land og tilgangur þeirra er að auka gæði aflans.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert