Starfsmenn Ríkisútvarpsins harma þá ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnarinnar að skera framlög til RÚV niður um einn tíunda.
Þessi ákvörðun hefur leitt til þess að um fimmtíu starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa nú misst vinnuna, bæði fastir starfsmenn og verktakar, í höfuðborginni og á landsbyggðinni. Sérhver alþingismaður ber persónulega ábyrgð á uppsögnunum, segir í ályktun sem samþykkt var á fundi starfsmanna hjá RÚV.
„Fáir opinberir starfsmenn hafa orðið jafn illa fyrir niðurskurðarhnífnum síðustu misseri og starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þetta er þriðja uppsagnahrinan á RÚV á stuttum tíma. Að auki þurftu starfsmenn Ríkisútvarpsins að sætta sig við launaskerðingu í fyrra, fyrstir opinberra starfsmanna.
Laun á Ríkisútvarpinu hafa löngum verið lág og almenn kjör voru skert verulega með nýlegri breytingu RÚV í opinbert hlutafélag. Geta Ríkisútvarpsins til að uppfylla lýðræðis- og menningarhlutverk sitt er í hættu. Álagið á starfsfólk hefur aukist meira en góðu hófi gegnir, sem hlýtur að koma niður á gæðum dagskrárinnar. Starfsfólk RÚV reynir þó eftir sem áður að gera sitt besta við erfiðar aðstæður til að þjóna almenningi í landinu.
Starfsmenn Ríkisútvarpsins harma að ákvarðanir Alþingis og ríkisstjórnar um RÚV skuli koma illa niður á þeim sem treyst hafa á mátt þess og styrk, hlustendum, áhorfendum, leikurum, leikstjórum, framleiðendum og fjölmörgum öðrum sem komið hafa að dagskrárgerð. Ábyrgðin hvílir þó algerlega á herðum ríkisstjórnarinnar og Alþingis, sem nú hafa opinberað virðingarleysi sitt fyrir Ríkisútvarpinu, hlutverki þess, starfsfólki og eigendum.
Starfsmenn Ríkisútvarpsins skora á Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og handhafa eina hlutabréfsins í Ríkisútvarpinu ohf, aðra ráðherra og alþingismenn að vakna upp af Þyrnirósardoðanum og koma RÚV til varnar.
Starfsmannafundur Ríkisútvarpsins lýsir ennfremur furðu sinni á grein formanns Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins í Fréttablaðinu fyrr í þessari viku. Fullyrðingu formannsins um að Ríkisútvarpið sé rjúkandi rúst er vísað á bug. Vinir í raun myndu ekki ganga fram með þeim hætti sem formaðurinn gerir í grein sinni."