Stjórnarmenn 365 hf. sem samþykktu söluna á fjölmiðlahluta fyrirtækisins til Rauðsólar í nóvember 2008 gætu borið persónulega skaðabótaábyrgð vegna gjörningsins. Eftir að 365 hf. seldi fjölmiðlahlutann til Rauðsólar var nafni félagsins breytt í Íslensk afþreying, en það félag er gjaldþrota í dag.
Þeir sem áttu skuldabréf á 365 hf., sem var skráð félag, eiga því núna kröfu í þrotabú Íslenskrar afþreyingar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kannar Landsvaki, sem átti skuldabréf á 365 hf., hvort hægt verði að krefja stjórnarmenn persónulega um skaðabætur fyrir dómstólum.
Þeir sem sátu í stjórninni sem samþykkti að selja fjölmiðlahluta 365 til Rauðsólar voru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haraldsson, Þorsteinn M. Jónsson, Magnús Ármann og Árni Hauksson. Árni greiddi atkvæði gegn því að selja fjölmiðlahlutann og sagði sig í kjölfarið úr stjórninni.
Sjá nánar um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.