Verður að ná niður hallarekstri ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Það verður ekki undan því vikist að ná hallarekstri ríkisins niður. Annars skapast hætta á að ríkið komist í veruleg greiðsluvandræði og skuldakostnaður verði svo hár að ekkert verði afgangs til þess að halda úti velferðarþjónustu og skólum. Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisraðherra í pistli á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Jóhanna ritaði pistilinn í tilefni þess að ár er liðið frá því að ríkisstjórn hennar tók við völdum.

„Einn veigamesti þátturinn í endurreisn efnahagslífsins er að ná endum saman í ríkisfjármálunum, án þess að ganga hart að velferðarkerfinu og þeim sem veikast standa og helst þurfa því á stuðningi þess að halda. Ríkisstjórnin tók við ríkisrekstrinum með um 200 milljarða halla á ári. Samkvæmt þeirri efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin vinnur eftir er hinsvegar gert ráð fyrir að jafnvægi náist í ríkisfjármálum árið 2013. Á síðustu tveimur árum var ríkisfjármálum á Íslandi beitt til þess að milda áhrif efnahagsáfallsins. Hallinn þessi tvö ár nemur tæplega 400 milljörðum króna. Nú verður ekki undan því vikist að ná hallarekstri ríkisins niður. Annars skapast hætta á að ríkið komist í veruleg greiðsluvandræði og skuldakostnaður verði svo hár að ekkert verði afgangs til þess að halda úti velferðarþjónustu og skólum. “

Jóhanna segir að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir stefnubreytingu á mörgum sviðum. „Við erum að beita okkur fyrir stefnubreytingu í skattamálum, í jafnréttismálum, í umhverfismálum, í sjávarútvegsmálum og stefnubreytingu í málum stjórnkerfis, réttarkerfis, stjórnsýslu og lýðræðis, í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og sótt hefur verið um aðild að Evrópusambandinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert