Beðið er svara frá erlendum sérfræðingum sem leitað hefur verið til um aðstoð við Íslendinga í samningum um Icesave-skuldir Landsbankans, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna funduðu með fulltrúum stjórnarflokkanna í hádeginu.
Sigmundur Davíð segir að hlutverk sérfræðinganna yrði að fara yfir þær hugmyndir sem til umræðu hafi verið meðal formanna flokkanna. „Ég hef allan tímann lagt áherslu á að við færum ekki að taka neinar endanlegar ákvarðanir fyrr en við hefðum fengið leiðbeiningar, að við stjórnmálamennirnir færum ekki að skrifa þessa samninga upp aftur,“ segir Sigmundur.
Hann segir að sátt sé um þetta sem næsta skref og beðið viðbragða frá erlendum sérfræðingum sem leitað hafi verið til.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat fundinn fyrir hönd Samfylkingarinnar en Jóhanna Sigurðardóttir er í fríi erlendis. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra er starfandi forsætisráðherra á meðan.