Starfshópur sem sjávarútvegsráðherra skipaði til að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar ákvað á fundi sínum í gær að halda áfram störfum þótt fulltrúar útvegsmanna taki ekki þátt í störfum hans eins og er.
Guðbjartur Hannesson alþingismaður, formaður starfshópsins, segir að reynt verði að fá fulltrúa útvegsmanna að borðinu, þótt síðar verði.
Skipaður hefur verið undirhópur undir forystu Einars K. Guðfinnssonar þingmanns til að gera tillögur um það hvernig best sé að orða ákvæði um þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá.
Annar undirhópur vinnur að því að greina helstu ágreiningsefni um fiskveiðistjórnunina. Þá er von á útreikningum Háskólans á Akureyri á ýmsum möguleikum um innköllun aflaheimilda.