Meira en helmingur þjóðarinnar er nú ónæmur fyrir svínainflúensunni A(H1N1). Búið er að bólusetja um 130.000 manns og ætla má að á bilinu 50-60.000 manns hafi fengið veikina í faraldrinum sem gekk yfir landið á síðari hluta árs 2009.
Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, telur að þær aðgerðir sem gripið var til, þar á meðal bólusetning gegn veikinni, hafi komið í veg fyrir sýkingu 30.000 manns og þar með hafi verið afstýrt 100 sjúkrahúsinnlögnum, 10 innlögnum á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa og einu dauðsfalli.
Í fréttatilkynningu frá sóttvarnalækni kemur fram að svínainflúensunnar verður nú ekki lengur vart hérlendis en veikin sé hins vegar vaxandi vandamál í mörgum öðrum löndum. „Þótt inflúensan sé nú ekki vandamál hér á landi má í ljósi sögulegrar reynslu gera ráð fyrir nýrri bylgju síðar á þessu ári eða á því næsta," segir í sóttvarnarlæknir. Til að koma í veg fyrir hana er ráðlagt að sem flestir láti bólusetja sig.
Nóg er enn til af bóluefni í landinu og fólk er eindregið hvatt til þess að hafa samband við næstu heilsugæslustöð og panta tíma í bólusetningu. Sóttvarnarlæknir ítrekar að engar fregnir hafi borist af alvarlegum aukaverkunum bólusetningar, en hinsvegar sé fjöldi dæma um afleiðingar inflúensunnar hjá fólki sem ekki var bólusett. Það á ekki aðeins við um fólk með ýmsa „undirliggjandi" sjúkdóma heldur einnig um fullfrískt fólk á aldrinum 30-50 ára.
Hérlendis eru skráð tvö dauðsföll vaf völdum svínainflúensu og tugir manna þurftu umönnun á sjúkrahúsum, sumir í lífshættu. Dæmi eru um fullfrískt fólk sem veiktist svo illa af inflúensunni fyrr í vetur að það er enn ekki orðið vinnufært og þarf langan tíma til að ná fullri heilsu og styrk.
Sóttvarnarlæknir þakkar landsmönnum
fyrir afar mikil, góð og árangursrík viðbrögð við ráðstöfunum og ráðleggingum
heilbrigðisyfirvalda undanfarna mánuði.
„Íslendingar eru í fremstu röð meðal þjóða þegar litið er til þess hve
stór hluti þjóðarinnar hefur látið bólusetja sig. Almenningur er líka sérlega
opinn fyrir því að tileinka sér hvað þarf að gera til að halda faraldrinum í
skefjum og má jafnvel líkja því við þjóðarvakningu hve fólk var fljótt að
tileinka sér tíða handþvotta, spritt á hendur, notkun pappírsklúta og fleira
sem skiptir máli í samskiptum og heilsuvernd yfirleitt."