Leki í aðalgeymslum Náttúrufræðistofnunnar

Þorvaldur Björnsson, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, í geymslunni í kvöld.
Þorvaldur Björnsson, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, í geymslunni í kvöld. mbl.is/Kristinn

Vatn flæddi inn í kjallara Náttúrufræðistofnunnar í Skútuvogi í Reykjavík um helgina, en þar eru aðalgeymslur stofnunarinnar þar sem margir safngripir eru geymdir. Að sögn Jóns Gunnars Ottóssonar forstjóra Náttúrufræðistofnunar virðist lekinn stafa af mannlegum mistökum.

„Þetta kemur af hæðinni fyrir ofan, við erum ekki alveg klár á því hvað gerðist en það gæti verið að einhver hafi gleymt að skrúfa fyrir eða eitthvað í þá áttina." Efri hæðin tilheyrir ekki Náttúrufræðistofnun. Jón Gunnar segir að sem betur fer virðist sem skemmdirnar séu minni en óttast var í fyrstu. Það megi meðal annars þakka því að geymslan hafi verið ágætlega búin undir svona slys því flestir safngripir eru geymdir á upphækkuðum stultum frá gólfi.

„En þetta var ótrúlega mikið af vatni og kom úr loftinu alls staðar meðfram pípum. Það var bara heppni að einum starfsmanni okkar finnst svona gaman í vinnunni að hann mætti klukkan sjö í morgun og uppgötvaði þetta." Ef svo hefði ekki verið hefði flóðið sennilega haldið áfram í allan dag og skemmdirnar orðið talsvert meiri.

Enn á eftir að leggja endanlegt mat á hversu miklar skemmdirnar eru en Jón Gunnar vonast til að þau sleppi með skrekkinn. Þetta er í fimmta skiptið á fimm árum sem munir Náttúrufræðistofnunar verða fyrir skemmdum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert