Robert Wade, prófessor við London School of Economics, sagði í Silfri Egils í dag, að vísbendingar hefðu komið fram um að hollenski seðlabankinnj hefði gert sig sekan um vítaverða vanrækslu þegar Landsbankinn fór að bjóða Icesave-reikninga í Hollandi.
Wade sagðist hafa bent á það í lesendabréfum í Financial Times, að þótt hollensk stjónvöld hafi lagt mikla áherslu á að Íslendingar verði að fallast þá skilmála sem Alþingi samþykkti í desember með Icesave-lögin, þá séu vísbendingar um að hollenski seðlabankinn hafi átt mikla sök á því sem gerðist og í raun stuðlað að því, að Landsbankinn gat boðið upp á Icesave-reikninga þar í landi í apríl 2008.
„(Hollenski seðlabankinn) lagði ekki mat á lausafjárstöðu (Landsbankans) þótt Alþjóðagreiðslumiðlunarbankinn í Basel í Sviss (BIS) hefði í febrúar sama ár gefið út viðmiðunarreglur um mat á lausafjáráhættu. Formaður nefndar BIS sem gaf út þessar reglur var jafnframt seðlabankastjóri Hollands. En á á milli febrúar og apríl 2008 sinnti þessi sami seðlabanki ekki því hlutverki sínu að leggja mat á lausafjárstöðu Icesave. Hefði hann gert það hefði ekki verið leyft að stofna Icesave-reikningana," sagði Wade.
Hann hvatti í viðtalinu til þess, að alþjóðlegur sáttasemjari verði fenginn til að miðla málum í deilum Íslendinga við Breta og Hollendinga.