Fjárhaldsstjórn skipuð

Frá Álftanesi
Frá Álftanesi mbl.is/Golli

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ákveðið að fara að tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og skipa fjárhaldsstjórn til að hafa forystu um endurskipulagningu fjármála  Álftaness.

Fjárhaldsstjórn verður skipuð þremur fulltrúum og tekur hún við stjórn fjármála sveitarfélagsins. Má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins. Fjárhaldsstjórnin tekur til starfa um leið og birting ákvörðunar hefur farið fram í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum. Skipunartími hennar er til 1. ágúst.  

Í fjárhaldsstjórninni munu sitja Andri Árnason hrl., tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Elín Guðjónsdóttir viðskiptafræðingur, tilnefnd af fjármálaráherra að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Verið er að kynna málið á blaðamannafundi þessa stundina. Að sögn samgönguráðuneytisins leggur ráðherra áherslu á að við fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins verði horft til þess að verja eins og kostur er grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og félagslega velferð þeirra.

Samkvæmt skýrslu bæjarstjórnar Álftaness, sem afhent var eftirlitsnefndinni í síðustu viku, námu skuldir sveitarfélagsins í árslok 2009 um 3,1 milljarði króna og skuldbindingar vegna rekstrarleigusamninga og annarra langtímasamninga eru áætlaðar um 4,1 milljarður. Sé því gert ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar í lok síðasta árs hafi numið rúmum 7,2 milljörðum króna.

Nefndin segir í bréfi til samgönguráðherra, að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, auknar álögur, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í nokkrum mæli geti sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Til þess að gera sveitarfélagið rekstrarhæft þannig að það geti staðið við skuldbindingar telur eftirlitsnefndin að sveitarfélagið þoli vart skuldir og skuldbindingar umfram 2-2,5 milljarða króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka