Sorphirðugjald hækkar hjá 13 af 15 fjölmennustu sveitafélögum landsins nema Fljótsdalshéraði þar sem þau lækka um 3% og hjá Reykjavíkurborg þar sem þau standa í stað. Mesta hækkun sorphirðugjalda milli ára er í Árborg sem hækkar um 54%, á Akranesi 46% og á Akureyri um 42%.
Þetta kemur fram í könnun, sem verðlagseftirlit ASÍ hefur gert á útsvari og álagningu fasteignagjalda í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins á árinu 2010.
Útsvarsprósentan er óbreytt frá árinu 2009 hjá 14 sveitafélögum en hækkaði hjá Mosfellsbæ úr 13,03 í 13,19%. Ellefu af þeim 15 sveitarfélögum sem skoðuð voru, innheimta hámarks leyfilegt útsvar 13,28%.
Fasteignagjöld breytast mikið á milli ára, að mestu vegna gagngers endurmats á fasteignamati en einnig vegna hækkana á álagsprósentu sveitarfélaganna. Mest hækka fasteignagjöld á Eyrarbakka vegna mikillar hækkunar á fasteignamati á svæðinu. Einnig eru miklar hækkanir á Selfossi og í Reykjanesbæ. Mesta lækkun á fasteignagjöldum á milli ára er á Völlunum í Hafnarfirði, í Teigum/Krikum í Mosfellsbæ, Sjálandi í Garðabæ og á Sauðárkróki.