Reikningur bresku lögmannsstofunnar Mishchon de Reya var um það bil tífalt hærri en Alþingi hafði reiknað með, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. Reikningurinn sem er upp á um 25 milljónir er á eindaga eftir um það bil viku.
DV greindi frá hinum háa reikningi sem breska lögmannsstofan sendi Alþingi og fjárlaganefnd fyrir vinnu við ráðgjöf og önnur störf tengd Icesave-málinu.
Helgi sagði aðspurður að ekki væri beinlínis ágreiningur um upphæð reikningsins. „Við urðum hins vegar mjög hissa,“ sagði Helgi. „Þetta var talsvert miklu meira en við höfðum reiknað með.“ Helgi sagði að upphaflega hafi verið talað um 1,5 til 2,5 milljónir króna.
„Við tökum þetta ekki af rekstarfjárveitingum okkar. Við höfum skorið niður allt í rekstri þingsins mjög harkalega. Það er eiginlega alveg útilokað að þetta fari af rekstrarfjárveitingu þingsins,“ sagði Helgi. Hann sagði að væntanlega þyrfti aukafjárveitingu til að bjarga þessum óvæntu útgjöldum.
Helgi sagði að það hafi verið vitað fyrirfram að vinna lögmannsstofunnar yrði dýr. Menn séu þar með mjög hátt tímakaup og erfitt að hafa einhverja reiðu á hvað þar fari fram.
„Það er ekki svona sem sérfræðiaðstoð þingsins er keypt. Ef við kaupum sérfræðiaðstoð hér innanlands er hún alltaf afmörkuð fyrirfram að umfangi og kostnaði. Þetta var eiginlega opið í annan endann,“ sagði Helgi.
Í frétt DV kom fram að reikningurinn sé sundurliðaður og þar komi fram að um tíu milljónir renni til Gunnlaugs Erlendssonar lögfræðings en hann er búsettur í Bretlandi.
Helgi sagði að þessi sundurliðun væri ekki sérstaklega að ósk Alþingis heldur sé um ráðstöfun lögmannsstofunnar að ræða. Svo virðist sem íslenski lögfræðingurinn hafi verið eins konar undirverktaki lögmannsstofunnar.