Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 60 þúsund króna sekt fyrir að brot gegn umferðarlögum og reglum um neyðarakstur með því að hafa ekið sjúkrabíl í neyðarakstri gegn rauðu ljósi á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu í sumar. Lenti sjúkrabíllinn í árekstri við annan bíl.
Sjúkrabíllinn var á leið í útkall vegna hjartsláttartruflana í manni vestur á Hagamel. Útkallið var flokkað sem forgangur tvö sem þýðir að líf sé mögulega í hættu.
Fram kemur í dómnum að sjúkraflutningamaðurinn hafi ekið með viðeigandi hljóð- og ljósmerkjum vestur Hringbraut á 60 km hraða gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Þar lenti hann í árekstri við annan bíl með þeim afleiðingum að sjúkrabíllinn valt.
Í niðurstöðu dómsins segir, að manninum hafi borið að sýna sérstaka varúð þegar hann ók yfir gatnamótin. Hraðinn mátti ekki vera meiri en svo að hann gæti stöðvað tafarlaust fyrir umferð úr þverstæðri átt. Maðurinn hafi ekið á um 60 km hraða inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi, sem hafi verið of mikill hraði.
„Ákærði sýndi því ekki þá varúð sem honum bar að sýna við akstur um gatnamót. Breytir engu um þess niðurstöðu að ákærði hafði uppi hljóð- og ljósmerki á sjúkrabifreiðinni," segir í niðurstöðu dómsins.