Fluttu út vörur fyrir 74 milljarða

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Ljósmynd/Emil Þór

Útflutningur Alcoa Fjarðaáls á síðasta ári nam tæplega 600 milljónum bandaríkjadala, sem jafngildir um 74 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Í tilkynningu félagsins segir, að flutt hafi verið út rúmlega 349 þúsund tonn af  hreinu áli, álblöndum og álvírum. Verðmæti útflutnings Alcoa Fjarðaáls í fyrra nam því rúmlega 1,4 milljörðum króna á viku, eða rúmlega 200 milljónum króna á dag.

Fyrir hvert tonn af áli fengust að meðaltali 1.708 bandaríkjadalir, eða um 210.000 íslenskar krónur miðað við núverandi gengi. Álverð sveiflaðist mjög mikið á árinu. Viðmiðunarverð á markaði fór niður fyrir 1300 dali í upphafi árs en í lok ársins var það komið  yfir 2300 dali.

Alcoa Fjarðaál segir, að á árinu hafi verið unnið að framleiðsluaukningu í álverinu með því að auka rafstrauminn sem leiddur er í gegnum kerin. Straumurinn var um áramótin kominn upp í 380 kílóamper, sem er hæsti straumur sem þekkist í álverum með sambærilega tækni.

Álframleiðslan var tæplega 3000 tonnum meiri en áætlanir fyrir árið gerðu ráð fyrir, eða rúmlega 349 þúsund tonn. Að meðaltali voru framleidd tæp 3 tonn af áli í hverju keri á dag. Fyrirtækið segir, að skýringin á aukinni framleiðslu sé fyrst og fremst bætt straumnýtni sem er með því besta sem gerist í heiminum.

Alcoa Fjarðaál notaði að jafnaði 554 megavött af raforku á síðasta ári. Keralína álversins notaði 529 megavött en að auki notaði Fjarðaál 25 megavött í annað en sjálfa álframleiðsluna, þannig að heildarnotkun fyrirtækisins er um 30% allrar raforku sem er framleidd á Íslandi.

Á árinu var aukin áhersla lögð á framleiðslu verðmætari afurða úr álinu: álvíra og svokallaðra melmisstanga, sem eru litlar 10 kg stangir úr álblöndum. Tæp 215 þúsund tonn voru framleidd af svokölluðum hleifum, tæplega 82 þúsund tonn af T-börrum, rúmlega 44 þúsund tonn af álvírum, sem eru verðmætasta afurð álversins, rúm 2 þúsund tonn af melmisstöngum og um 7 tonn af öðrum vörum. Stefnt er að því að auka enn framleiðslu á melmisstöngum og álvírum á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert