„Kasínó er raunhæfur kostur“

Reuters

„Kasínó er alþjóðlegt orð og spilavíti svo hrikalega neikvætt að maður veltir fyrir sér hvaða áróðursmeistari fann það upp,“ segir Arnar Gunnlaugsson hjá Ábyrgri spilamennsku ehf., spurður um það hvers vegna aðeins er rætt um kasínó í sambandi við hugmynd félagsins um að setja á fót spilavíti í húsakynnum hótelsins Hilton Reykjavík Nordica.

Ábyrg spilamennska er að jöfnum hlutum í eigu Icelandair Hotels, sem rekur ofangreint hótel, og Arnars og Bjarka Gunnlaugssona, sem þekktastir eru fyrir kunnáttu sína í knattspyrnu. Hugmynd um kasínó var kynnt í iðnaðarráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu. Í kjölfarið hefur verið óskað eftir umsögnum fagaðila.

„Við höfum unnið að þessu máli mjög lengi og vorum í raun að bíða eftir rétta tækifærinu. Kasínó er raunhæfur kostur og ef ekki núna þá síðar,“ segir Arnar og bendir á að sama umræða hafi farið fram í Danmörku í lok níunda áratugar síðustu aldar. „Þar var ákveðið að lögleiða rekstur kasínós með ströngum skilyrðum og hárri skattlagningu.“

Arnar segir að reynsla Dana sé sú að ólöglegir spilaklúbbar lögðust af og viðskiptavinir þeirra sóttu þess í stað í kasínóin. Hann bendir á að ólöglegum spilaklúbbum hafi fjölgað mikið hér á landi, og netspilun einnig aukist. Af þeirri spilamennsku fái ríkið engar skatttekjur.

Arnar segir um of einblínt á neikvæðar hliðar spilamennskunnar, án þess þó að hann geri lítið úr spilafíkn. Hins vegar sé hægt að hafa meira eftirlit með spilamennsku og auðveldara að koma þeim til hjálpar sem eiga við spilafíkn að stríða.

Talið er að á milli fjörutíu og sjötíu störf skapist verði hugmyndinni veitt brautargengi, en til þess þarf lagabreytingu. Ekki náðist í Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, við vinnslu fréttarinnar.

  • Á milli fjörutíu og sjötíu störf skapast með opnun spilavítis · Sama hugmynd var til umræðu í Danmörku fyrir tuttugu árum · Sú ákvörðun var tekin að leyfa fjárhættuspil með skilyrðum
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert