Leif Ivar Kristiansen, norski vítisengillinn sem vísað var frá landinu í morgun, hefur komið hingað til lands áður án hindrana, að því er norskir fjölmiðlar sögðu í kvöld. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að síðan hafi íslensk stjórnvöld hert eftirlit með þessum samtökum.
Kristiansen kom til Íslands í gær ásamt lögmanninum Morten Furuholmen. Tilgangurinn með ferðinni var að höfða mál gegn íslenska ríkinu vegna annars vítisengils, sem reyndi að koma til Íslands í síðustu viku en var þá vísað úr landi, að sögn fréttavefjar VG.
Blaðið hefur eftir íslenskum Furuholmen að ef íslensk stjórnvöld vilji gera undantekningu frá reglum um frjáls ferðalög þá verði þau að geta sýnt fram á að raunveruleg og bráð ógn steðji að samfélaginu og öryggi landsins. „Það er ekki nóg að viðkomandi sé félagi í Vítisenglum til að víkja honum úr landi," segir lögmaðurinn.
Furuholmen staðfestir við Aftenposten, að Kristiansen hafi ætlað að hitta félaga í MC Iceland, áður Fáfni, en að sögn ríkislögreglustjóraembættisins stendur til að íslenska félagið fái fullgilda aðild að Hells Angels samtökunum, sem eru sögð skipulögð glæpasamtök. Inngönguferli MC Iceland hafi verið stýrt frá Hells Angels-samtökunum í Noregi.
Aftenposten segir að Kristiansen hafi verið handtekinn í Ósló í tengslum við umfangsmiklar lögregluaðgerðir gegn Vítisenglum í Þrándheimi. Hann var þá grunaður um stórfellt fíkniefnabrot. Þá fannst mikill fjöldi vopna í aðgerðum lögreglu.
Í gær hélt lögreglan áfram aðgerðum gegn Vítisenglum í Ósló og Þrándheimi.