Fjörutíu og fjórum atkvæðum munaði á fyrsta og öðru sætinu í forvali Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þykir sem verðandi oddviti hafi haft rangt við. Kjörstjórn er því ósammála.
Sóley Tómasdóttir fékk flest atkvæði í fyrsta sætið. Hún upplýsti um það á vefsvæði sínu í gær að hringt hefði verið í tæplega þrjú hundruð einstaklinga heiman frá henni á kjördag. Þar af voru fimmtán sem ekki áttu heimangengt. Var þá farið með kjörseðil til þeirra og honum svo skilað á kjörstað.
Þorleifur Gunnlaugsson, sem hafnaði í öðru sæti forvalsins, kvartaði yfir því kl. 16.40 á kjördag að stuðningsmenn Sóleyjar hefðu þann háttinn á að keyra með kjörseðla fólks á kjörstað. Sjálfur hefði kosningastjóri hans – og sonur – áttað sig á þessari glufu í ákvæðnum og spurt Stefán Pálsson, formann kjörstjórnar, óformlega út í málið. Svör Stefáns voru á þá leið að slíkt væri óheimilt.
Þorleifur fór eftir því sem Stefán sagði og kvartaði þegar hann sá Sóleyju leika annan leik. Hann fór fram á að kjörstjórn tæki kvörtun sína fyrir áður en utankjörfundaratkvæði yrðu talin en fékk ekkert svar.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.