Í drögum að lánasamningum vegna Icesave-málsins við Hollendinga og Breta frá því í desember 2008 var gert ráð fyrir föstum 6,7% vöxtum upp á 6,7% og 10 ára lánstíma með 3 ára afborgunarleysi á höfuðstól en ekki vöxtum.
Samningarnir eru einkaréttarlegs eðlis, það er á milli tryggingarsjóða landanna. Greiðsluskylda Íslands á lágmarkstryggingu er viðurkennd og í samningunum eru engin endurskoðunarákvæði.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er um að ræða drög frá 19. desember sem höfðu verið send til íslenskra stjórnvalda eftir að athugasemdir höfðu verið gerðar af hálfu íslensku samninganefndarinnar undir forystu Baldurs Guðlaugssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins.
Samningarnir voru unnir á grundvelli minnisblaðs frá 11. október 2008, svonefndra Brussel viðmiða frá 13. nóvember 2008, viljayfirlýsingu íslenskra við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá 19. nóvember 2008 og þinsályktunartillögu, sem samþykkt var af meirihluta Alþingis 5. desember 2008. Segir ráðuneytið að samningaferlið hafi staðið yfir uns ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fór frá völdum um mánaðamótin janúar-febrúar árið 2009.
Indriði H. Þorláksson, sem sat í íslensku Icesave-samninganefndinni á síðasta ári, sagði í grein í Fréttablaðinu í dag, að í þessum samningsdrögum hafi verið nánast öll efnisatriði núverandi Icesave-samnings en bara hærri vextir, stífari afborganir og styttri afborgunartími.