„Ég taldi mjög áríðandi að þetta kæmi fram af því að þetta eru alvarlegar ávirðingar sem er ekki hægt að sitja undir ósvarað og eins málstaðarins vegna fyrir Íslendinga erlendis,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, um opið bréf sitt til seðlabankastjóra Hollands.
Bréfið, eða öllu heldur greinin, birtist bæði í hollenska dagblaðinu de Volkskrant og á vef þess. Hátt í 30 athugasemdir hafa þegar borist við greinina og segir Tjerk van Weezel, ritstjóri aðsends efnis hjá blaðinu, marga lesendur tjá þá skoðun sína að Nout Wellink seðlabankastjóri hafa glatað trúverðuleika sínum og beri því að segja af sér. Meirihluti lesenda taki undir með ráðherranum fyrrverandi.
Varð hugsi eftir vitnisburðinn
Björgvin kveðst aðspurður hafa fundið sig knúinn til að svara ávirðingum Wellinks.
„Eins og ég legg út af varð ég hugsi eftir að hafa lesið vandlega vitnisburð Wellink um daginn fyrir hollensku þingnefndinni. Það voru nokkur atriði sem mér fannst áríðandi að kæmu fram. Hann varpaði allri ábyrgð á innistæðureikningunum í gistiríkjunum yfir á Ísland og sakaði stjórnvöld um ósannindi og kannski blekkingar.
Í fyrsta lagi vildi ég að það kæmi fram að blekkingar voru aldrei viðhafðar af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar og klárlega ekki míns ráðuneytis, af því samskiptin við ráðuneytið og þennan hollenska seðlabanka voru engin.
Í öðru lagi þá var kjarni þess sem ég vildi koma á framfæri sá hin sameiginlega ábyrgð sem Wellink sjálfur undirstrikaði svo rækilega í vitnisburði sínum, en samkvæmt lögum er það hollenski seðlabankinn sem fer með lausafjáreftirlitið og neytendaréttinn.
Þá kom það fram hjá honum að Frakkarnir, þ.e.a.s. fjármálaeftirlit og seðlabanki þeirra, stöðvuðu stofnun Icesave í Frakklandi á svipuðum tíma og á sömu forsendum út af fjármálalegum óstöðugleika í heiminum og stærð íslensku bankanna sjálfsagt, sem dregur fram kjarna málsins, að hollensk yfirvöld höfðu það fullkomlega í hendi sér, þ.e. seðlabankinn hollenski, hvort af stofnun þessa útibús yrði eða ekki og þessara netreikninga.
Þeir heimiluðu það þrátt fyrir að hafa viðrað og skýrt frá efasemdum um stöðuna í íslensku efnahagslífi, eins og hann orðar það sjálfur. Ég bendi í greininni og fyrirsögn hennar á þann kjarna að Wellink beitti ekki sömu úrræðum og Frakkarnir, hann gat stöðvað Icesave Holland, og væntanlega íslenska fjármálaeftirlitið. Ábyrgðin á þessum ósköpum er svo sannarlega sameiginleg, þessara eftirlitsaðila og stjórnvalda þessara tveggja ríkja.“
Laug ekki að seðlabankastjóranum
– Wellink hefur vænt Íslendinga um lygar?
„Hann vænir einhverja óskilgreinda Íslendinga um lygar, sem eru þá væntanlega íslensk yfirvöld. Það er aldrei sagt hverjir. Ef þú lest vitnisburðinn kemur í ljós að hann segir bara "the Icelanders". Hann segir ekki "government" eða eitthvað þvíumlíkt. Hann tiltekur það ekki.
Þess vegna má segja að það sé enn þá alvarlega og ég sem fyrrverandi ráðherra að hluta að þessum málum vildi taka afdráttarlaust fram að það var enginn á mínum vegum eða ég sjálfur sem nokkru sinni veitti honum rangar upplýsingar, enda engar upplýsingar sem ég veitt honum í mínu tilfelli.
Ég taldi mjög áríðandi að þetta kæmi fram af því að þetta eru alvarlegar ávirðingar sem er ekki hægt að sitja undir ósvarað og eins málstaðarins vegna fyrir Íslendinga erlendis. Þetta mikla bankafall um víða veröld, á Íslandi sem og víða annars staðar, sem var ef til vill verst hér, tengist víða og er á ábyrgð margra aðila, meðal annars þetta ömurlega mál, Icesave-Holland, sem er einn versti bletturinn á þessu öllu.
Þar gátu Hollendingar sjálfir komið í veg fyrir að hann færi af stað fyrst þeir bjuggju sjálfir yfir þeim upplýsingum að íslenska efnahagslífið væri ótraust,“ segir Björgvin G. Sigurðsson.