Kristrún Heimisdóttir, sem var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúar Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að drög að lánasamningum Íslands við Bretland og Holland vegna Icesave-málsins í desember 2008, sem fjármálaráðuneytið birti í dag, hafi aldrei verið borin undir utanríkisráðherra.
„Ýmis skjöl af þessu tagi eru til, enda reyndu Bretar og Hollendingar margsinnis að knýja Íslendinga til að ganga að tvíhliða lánasamningum sem Íslendingar töldu óaðgengilega, og höfðu samningsskjöl til reiðu með aðstoð íslenskra lögmannsstofa. Þetta skjal sætir því engum tíðindum og var aldrei borið undir ráðherra," segir Kristrún í athugasemd sem hún hefur sent frá sér.
„Á þessum tíma var langt í land að samningar lægju fyrir enda lágmarksviðmið Íslands að ná pólitískum árangri á grundvelli ályktunar Alþingis um Brusselviðmið sbr. það sem segir í sameiginlegu minnisblaði fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis til utanríkismálanefndar Alþingis frá 14. desember s.l. en þar stendur:
Af hálfu Íslands var litið svo á að með hinum sameiginlegu viðmiðum væri komin upp ný staða í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga og að meira tillit yrði tekið til hinna fordæmalausu aðstæðna á Íslandi en gert hafði verið fram að því, svo sem í samkomulaginu frá 11. október. Í Brussel-viðmiðunum fælist n.k. núllstilling og var megintilgangur þeirra þríþættur. Í fyrsta lagi að losa um þá stíflu sem myndast hafði við afgreiðslu efnahagsáætlunar Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í öðru lagi að komast undan niðurstöðu gerðardómsins sem felldur var í kjölfar ECOFIN fundarins og í þriðja lagi að skapa grundvöll fyrir nýjum samningaviðræðum þar sem tekið yrði tillit til sérstaklega erfiðrar stöðu Íslands m.a. í formi hagstæðari lánakjara en þeirra sem fallist hafði verið á við Hollendinga mánuði fyrr."