Landsvirkjun hefur ákveðið að óska eftir tilboðum í nokkra verkhluta vegna upphafsframkvæmda við Búðarhálsvirkjun. Um er að ræða vinnu við gröft jarðganga, skurða og vatnsþróar og tilheyrandi styrkingu með sprautusteypu.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nú stendur yfir á vegum Landsvirkjunar en Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, situr fundinn ásamt forsvarsmönnum Landsvirkjunar. Verður útboðið auglýst formlega á morgun og tilboð verða opnuð 11. mars.Gert er ráð fyrir að unnið verði að undirbúningsverkunum á sumri komanda og í haust og að þeim verði lokið að fullu fyrir 1. desember 2010. Kostnaður við þau er áætlaður á bilinu 600-800 milljónir króna, að meðtalinni hönnun, verkumsjón og eftirliti.
Takist samningar um orkusölu og fjármögnum Búðarhálsvirkjunar verða helstu áfangar framkvæmdarinnar boðnir út síðar á árinu 2010.
Búðarhálsvirkjun verður um 80 MW (uppsett afl) og orkugetan allt að 585 GWst á ári. Til samanburðar má geta þess að uppsett afl Vatnsfellsvirkjunar er 90 MW og orkugeta allt að 430 GWst á ári.
Stöðvarhús Búðarhálsvirkjunar verður ofanjarðar, grafið inn í hlíð Búðarháls við Sultartangalón.
Inntakslón Búðarhálsvirkjunar, Sporðöldulón, verður myndað með rúmlega tveggja km langri stíflu yfir Köldukvísl, skammt ofan ármóta Köldukvíslar og Tungnaár en neðan Hrauneyjarfossstöðvar. Stíflan verður hæst um 24 metrar og flatarmál lónsins um 7 ferkílómetrar.
Heildarkostnaður við Búðarhálsvirkjun er áætlaður um 26,5 milljarðar króna á verðlagi í janúar 2010, án fjármagnskostnaðar og án virðisaukaskatts.
Skipulagsstofnun samþykkti virkjunina í maí 2001 eftir mat á umhverfisáhrifum og í framhaldinu fékk Landsvirkjun virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi og önnur tilskilin leyfi. Grafið var fyrir grunni stöðvarhúss og vegur lagður um Búðarháls með brú yfir Tungnaá. Framkvæmdum var síðan slegið á frest árið 2002.
Alls er ráðgert að heildarframkvæmdin skapi 500 ársverk, en við undirbúningsframkvæmdirnar verða til 20-40 ársverk sem eru fyrst og fremst í jarðvinnsluvinnu.