Landsvirkjun auglýsir útboð fyrsta áfanga Búðarhálsvirkjunar á morgun en gert er ráð fyrir því að virkjunin verði gangsett 2013.
Útboðið nú tekur einungis til ýmiskonar jarðvegsvinnu í tengslum við virkjunina og er kostnaður við þá vinnu áætlaður á bilinu 600 - 800 milljónir króna. Virkjunin öll mun hins vegar kosta 26,5 milljarða en gangi fjármögnun og samningar um orkusölu eftir er vonast til að hægt verðið að bjóða restina út síðar á árinu.
Öll tilskilin leyfi vegna Búðarhálsvirkjunar hafa legið fyrir frá árinu 2001 en hún verður um 80 megavött og orkugetan allt að 585 gígavattsstundir á ári.
Með því að bjóða út hluta verkefnisins nú er tryggt að verkið haldi áætlun þannig að hægt verði að gangsetja virkjunina árið 2013. Til að svo megi verða þarf að ráðast í jarðvegsframkvæmdir í sumar sem óhagkvæmt er að vinna á veturna.
Gert er ráð fyrir að fjármögnun komi að hluta til frá lífeyrissjóðum innanlands en að stærstum hluta erlendis frá. Að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar stendur Icesave-málið þó í vegi fyrir því að hagstæð lánakjör fáist.
Landsvirkjun á í viðræðum við Alcan um kaup á orkunni til stækkaðs álvers í Straumsvík en Hörður segir þó marga aðra áhugasama um kaup á henni.