22% verðmunur reyndist á matvörukörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslununum sl. þriðjudag. Vörukarfan var ódýrust í Bónusi þar sem hún kostaði kr. 14.736 en dýrust í Kosti, 17.920 krónur. Aðeins munaði 111 krónum á körfunni í Krónunni og Nettó.
Fram kemur á heimasíðu ASÍ, að í vörukörfunni sé 41 almenn neysluvara til heimilisins, svo sem mjólkurvörur, ostur, brauð, morgunkorn, grænmeti, kjöt, fiskur, drykkjarvörur auk pakkavara og dósamat.
Mestur verðmunur í könnuninni var á nautahakki 8–12% sem var dýrast í Kosti, 1659 krónur kílóið, en ódýrast í Krónunni, 799 krónur. Verðmunurinn var 860 krónur eða tæplega 108%. Ferskar kjúklingabringur voru dýrastar í Nettó, 2941 króna, og ódýrastar í Bónusi 1598 krónur, munurinn er 1343 krónur eða 84%.
Minnstur verðmunur kom fram á viðbiti, mjókurvörum og sykruðum drykkjarvörum.
Mikill verðmunur var á ódýrasta kílóverði af spagetti sem kostaði 195 krónur í Bónusi en var dýrast í Kosti, 378 krónur og var verðmunurinn tæp 94%. Verðmunur á grænmeti og ávöxtum var einnig mikill. Ódýrustu rauðu eplin kostuðu 198 krónur kílóið í Nettó en voru dýrust, 329 krónur, í Krónunni sem er 66% verðmunur. Ódýrasta kínakálið kostaði 178 kg/kg í Bónus, en dýrasta var það á 275 kr/kg í Kosti, verðmunurinn er 54,5%.
Heilveitibrauð var ódýrast í Bónusi, 198 krónur kílóið, en dýrast í Krónunni 209 krónur sem er tæplega 37% verðmunur. Lægsta kílóverðið á Kellogg‘s kornflögum var í Bónusi, 698 krónur en hæsta verðið var í Kosti, 998 krónur,, sem er 43% verðmunur.