Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í 2 ára fangelsi fyrir margvísleg hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gegn þremur ungum börnum sínum, sem honum hafði verið treyst fyrir. Brotin voru framin á sameiginlegu heimili þeirra á tæplega þriggja ára tímabili og segir Hæstiréttur að þetta mál sé án fordæmis.
Héraðsdómur hafði áður dæmt manninn í 18 mánaða fangelsi en Hæstiréttur þyngdi dóminn. Þá var staðfest, að maðurinn skyldi greiða börnunum bætur, einu 1,2 milljónir og hinum tveimur 600 þúsund krónur hvoru.
Málið kom upp í byrjun árs 2008 og eftir könnun barnaverndaryfirvalda var því skotið til lögreglu. Maðurinn neitaði staðfastlega en börnin, sem eru fædd árin 1993, 1995 og 1999, báru öll vitni gegn manninum.
Maðurinn var m.a. ákærður fyrir að kasta hnífum að syni sínum og hóta honum með eftirlíkingu af skammbyssu, sem drengurinn hélt að væri raunveruleg hlaðin skammbyssa.
Þá var hann ákærður fyrir að hafa handjárnað eldri dóttur sína við ofn og handleikið síðan hníf fyrir framan hana og í nokkur skipti slegið hana í andlitið.
Einnig var hann ákærður fyrir að hafa í nokkur skipti slegið yngri dóttur sína í andlitið og klipið fast í kinnar hennar. Þá var hann ákærður fyrir að hafa hrint stúlkunni fullklæddri ofan í baðkar sem fullt var af köldu vatni og haldið henni þar í stutta stund. Þá lokaði hann stúlkuna úti í skamman tíma að vetri til þegar kalt var í veðri og barnið á náttfötum einum klæða.