„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og teljum hana vera rétta,“ segir Eiríkur Tómasson prófessor, framkvæmdastjóri Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), en Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um að fyrirtækið Istorrent og forsvarsmaður þess séu bótaskyld gagnvart STEFi. Hæstiréttur staðfesti einnig lögbann, sem STEF fékk sett á vefsíðuna torrent.is í nóvember 2007.
„Aðalatriðið er að lögbannið var staðfest og viðurkennd bótaskyldan, að þetta var ólögmætt atferli sem menn höfðu þarna í frammi,“ segir Eiríkur og tekur fram að búast megi við því að niðurstaða Hæstaréttar veki ekki aðeins athygli og sé fordæmisgefandi hérlendis heldur einnig á Norðurlöndunum og víðar.
Spurður hvort STEF hyggist í framhaldinu höfða skaðabótamál á hendur fyrirtækinu Istorrent og forsvarsmönnum þess segir Eiríkur að skoða þurfi það sérstaklega. „Við vildum fyrst fá viðurkennda bótaskylduna. Í framhaldinu munum við skoða hvaða tjón við höfum beðið auk þess sem við þurfum að skoða hvort þeir sem eru ábyrgir séu borgunarmenn fyrir því tjóni sem þeir hafa valdið höfundum,“ segir Eiríkur. Tekur hann fram að vilji forsvarsmenn Istorrents ekki greiða bætur sé STEF nauðugur einn kostur að fara í sérstakt skaðabótamál.