Mannanafnanefnd hefur samþykkt eiginnöfnin Liljurós, Hinrikka og Vigný, en hafnað nöfnunum Veronica, Besti og Liljarós.
Um eiginnafnið Veronicu segir aðþað geti ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn „c“ teljist ekki til íslenska stafrófsins þótt hann komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem unnið hafi sér hefð hérlendis. Bent er á að rithættirnir Veróníka, Veronika og Veroníka séu leyfð.
Nafninu Besti er hafnað þar sem engin hefð sé fyrir því að eiginnöfn séu leidd af miðstigi eða efsta stigi lýsingarorða.
Liljarós fæst ekki samþykkt þar sem það geti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Lilja og Rós sem eitt orð. Liljurós er hins vegar myndað í samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur.