Rauði kross Íslands hefur valið Magneu Tómasdóttur sem skyndihjálparmann ársins 2009 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnea bjargaði lífi föður síns, Tómasar Grétars Ólasonar, þegar hann fór í hjartastopp í sumarhúsi fjölskyldunnar á Hvalsnesi á Suðurnesjum.
Magnea var þar ásamt föður sínum, 18 mánaða gömlum syni sínum og 8 ára systurdóttur, Ernu Diljá. Tómas var að hvíla sig eftir kvöldmatinn í stofunni og þær frænkur voru að spila við borð í sama herbergi. Erna Diljá tók á eftir því að afi var ekki eins og hann átti að sér að vera, og þegar Magnea sneri sér að föður sínum áttaði hún sig á því að hann hafði misst meðvitund og það kurraði í honum.
Magnea náði umsvifalaust í farsímann sinn og hringdi í Neyðarlínuna, tók alla púða undan höfði Tómasar og lét hann liggja áfram á hörðum bekk. Hún byrjaði strax hjartahnoð og blástur með símann á öxlinni og hélt því áfram allt þar til aðstoð barst frá Keflavík um 16 mínútum síðar. Sjúkraflutningamennirnir gáfu Tómasi tvisvar sinnum rafstuð og hjartað fór að slá aftur.
Að sögn Rauða kross Íslands hefur Magnea nokkrum sinnum sótt skyndihjálparnámskeið.
Þetta er í níunda sinn sem Rauði krossinn velur skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni, og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.