Istorrent bótaskylt

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um að fyrirtækið Istorrent og forsvarsmaður þess séu bótaskyld gagnvart Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).

Hæstiréttur staðfesti einnig lögbann, sem STEF fékk sett á vefsíðuna torrent.is í nóvember 2007. Þá var Istorrent og Svavari Lúterssyni, forsvarsmanni fyrirtækisins, er gert að greiða STEF 700 þúsund krónur í málskostnað.

Istorrent veitti netnotendum aðgang að höfundarréttarvörðu hljóð- og myndefni. Hæstiréttur segir, að Istorrent og Svavar hafi með starfrækslu vefsvæðisins og tækniuppbyggingu þess komið því til leiðar með markvissari hætti að fram gætu farið greið og umfangsmikil skráarskipti með efni, sem háð væri höfundarétti, og þannig beinlínis stuðlað að brotum notenda vefsvæðisins. Hefðu Istorrent og Svavar því brotið gegn lögvörðum rétti STEFS og því hafi lagaskilyrði verið uppfyllt til að leggja lögbannið á. 

Þá taldi Hæstiréttur að Istorrent og Svavar hefði verið eða mátt vera ljóst, að háttsemi þeirra var ólögmæt og til þess fallin að valda umbjóðendum STEFS tjóni. Þótt tjónið yrði fyrst og fremst rakið til háttsemi notenda vefsvæðisins hefði hin saknæma og ólögmæta háttsemi fyrirtækisins verið meðorsök þess. Því féllst Hæstiréttur á að Istorrent og Svavar séu skaðabótaskyld gagnvart STEFi.

Samtök um hugverkavernd, sem er samstarfsvettvangur Samtóns, SMÁÍS og SÍK, segjast í tilkynningu fagna þessari niðurstöðu sem sé í samræmi við niðustöður sambærilegra mála á Norðurlöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert