Í Brusselviðmiðunum og ályktun Alþingis frá því í byrjun desember 2008 lá fyrir að íslensk stjórnvöld væru tilbúin að ganga til samninga og ná einhvers konar lendingu varðandi Icesave, að því gefnu að tekið yrði tillit til hinna erfiðu og fordæmalausu aðstæðna sem Ísland var – og er – í.
Baldur Guðlaugsson, einn samningamanna fyrir hönd Íslands, segir að rökrétt framhald hafi því verið að ganga til viðræðna um það hvernig umgjörð samninganna gæti orðið. Í desember 2008 var því í gangi ferli til að reyna ná utan um þann ramma.
„Hins vegar var kristaltært í desember að ósamið var um – og það létu íslensk stjórnvöld koma fram í skriflegum samskiptum við viðsemjendur – öll lykilatriði,“ segir Baldur og tekur sem dæmi lánstíma samningsins, lengd afborgunarleysistímabilsins og vaxtakjör auk þess sem ljóst var að stjórnvöld myndu gera kröfu um að samningar yrðu teknir upp ef aðstæður breyttust til hins verra, þ.e. svonefnt endurskoðunarákvæði.
Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.