Fréttaskýring: „Reyna að þvo hendur sínar af eigin verkum“

„Nú sjá menn fram á það, að mögulegt sé að taka upp viðræður á nýjum forsendum og þá vill enginn kannast við að bera ábyrgð á að hafa leitt til lykta viðræðurnar og landað Icesave-samningnum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um grein Indriða H. Þorlákssonar um Icesave sem birtist í Fréttablaðinu í gær og birtingu draga að samningum frá desember 2008.

Bjarni segir með ólíkindum miðað við stöðu Icesave-málsins í dag að aðstoðarmaður fjármálaráðherra dragi á opinberum vettvangi fram það sem hann telur málstað Íslands síst til framdráttar.

Grein Indriða var svar við annarri skrifaðri af Kristrúnu Heimisdóttur, aðstoðarkonu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í tíð utanríkisráðherrasetu hennar. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að Indriði hafi viljað koma þessum sjónarmiðum á framfæri úr því að umræðan var hafin á annað borð og „dregnar upp, að þeirra dómi sem gjörþekkja bakgrunn Icesave-málsins, rangar ályktanir um stöðu þess í nóvember/desember árið 2008.“ Hann segist ekkert sjá að því að menn komi upplýsingum um þennan tíma á framfæri og geri þessi gögn aðgengileg. Steingrímur á þar við drögin að lánasamningum við Hollendinga og Breta frá því í desember 2008, sem birt voru á vefsvæðinu island.is í gær.

Nákvæmlega engin þýðing

Bjarni bætir því við, að drögin hafi „nákvæmlega enga þýðingu, aðra en að þar er birtingarmynd þeirra krafna sem Bretar og Hollendingar hafa haldið á lofti frá upphafi“. Hann segir það sem máli skiptir vera, að í fyrri tíð var ekki samið um neitt. „Og það þýðir ekkert fyrir þetta fólk að reyna að þvo hendur sínar af eigin verkum. Þetta er makalaust innlegg í umræðuna á þessum tímapunkti.“

Bókanir gagna mismunandi

Steingrímur segir hins vegar að birting gagnanna breyti engu varðandi stöðu málsins í dag, breyti ekki þörfinni á að leysa málið og „ég treysti því og trúi að það fari enginn að láta þetta hafa áhrif á stöðu málsins“.

Spurður hvort grein Indriða hafi verið birt með samþykki ráðherrans neitar Steingrímur því. „Indriði stendur fyrir sínum skrifum og hefur fullt leyfi til þess að svara fyrir sig þegar hann telur tilefni til. Ég geri engar athugasemdir við það og geri enga kröfu um það, að hann beri undir mig greinar í sínu nafni.“

6,7% vextir og afborganir til 2018

6,7%

Íslendingar undirrituðu viljayfirlýsingu ásamt Hollendingum um lán á 6,7% vöxtum eftir að samninganefnd þeirra hafði skírskotað til útreikninga AGS.

5,55%

Í Icesave-samningunum sem samþykktir voru í júní voru vextirnir 5,55%. Prósentan var lækkuð með tilliti til fordæmalausra aðstæðna á Íslandi.

?%

Ef Bretar og Hollendingar fallast á að taka upp viðræður að nýju er óvíst hver prósentan verður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert