Samtök atvinnulífsins telja, að 5% árlegur hagvöxtur á árunum 2011 til 2015 sé nauðsynlegur til að endurheimta þau störf sem hafa tapast og skapa jafnframt atvinnutækifæri fyrir þá, sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn.
Með slíkum hagvexti verði lífskjör þjóðarinnar, velmegun og velferð, endurheimt á árinu 2015, sjö árum eftir hrun. Hægari vöxtur tefji endurreisnina og samkvæmt opinberum spám sem liggi fyrir um hagvöxt á næstu árum stefni í nýjan áratug hinna glötuðu tækifæra.
Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem Samtök atvinnulífsins héldu í dag um stefnumörkun um atvinnu- og efnahagsmál sem miðar að sköpun nýrra starfa og uppbyggingu atvinnulífsins á þessu ári og í næstu framtíð. Megin markmiðið er að útrýma atvinnuleysi og að ný störf verði til.
Segja samtökin að meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk sé að fjárfesta í atvinnulífinu, sérstaklega í útflutningsstarfsemi. Til þess þurfi atvinnulífið að fá greiðari aðgang að innlendu og erlendu lánsfé á viðráðanlegum kjörum og búa verði þeim hagstæð skilyrði sem vilji fjárfesta og byggja upp eigið fé atvinnulífsins. Lægri vextir og opinn aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum hafi þar lykilþýðingu.
Samtök atvinnulífsins segjast ætla að leita eftir samstöðu með öllum aðilum, sem hafi metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar til að ná þessum viðsnúningi strax þannig að endurheimta megi fulla atvinnu og fyrri lífskjör ekki síðar en á árinu 2015.
Heimasíða Samtaka atvinnulífsins