Atvinnumálin í forgangi

Ríkisstjórnin hyggst auka eigið fé Byggðastofnunar um 3,6 milljarða króna til að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Þá kynntu Samtök atvinnulífsins aðerðaáætlun sína til uppbyggingar atvinnulífsins í dag.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra gerði í dag grein fyrir nýjum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að fjölga störfum á vinnumarkaði. Vonir eru ekki síst bundnar við hátækni- og sprotafyrirtæki sem hafa skapað fjölmörg störf að undanförnu að hennar sögn.

Auk þess að leggja 3,6 milljarða í Byggðastofnun ganga aðgerðirnar meðal annars út á að koma byggingariðnaðinum í gang, sér í lagi á sviði viðhalds. Stutt verður við bakið á vöruþróun með sérstökum nýsköpunarsmiðjum og stefnt er að mikilli og hraðri uppbyggingu í ferðamannaþjónustu. Er áætlað að leggja 500 – 700 milljónir í sérstakan sjóð til að ýta undir uppbyggingu á helstu ferðamannastöðum.

Atvinnumálin eru þó fleirum en ríkisstjórninni hugleikin því Samtök atvinnulífsins kynntu einnig aðgerðaráætlun í dag þar sem meginatriðið er fjölgun starfa.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA segir meðal annars þörf á að lækka vexti, ná jafnvægi í ríkisfjármálum með frekari lækkun útgjalda og afnámi gjaldeyrishafta og nefnir að tafir á lausn Icesavedeilunnar hafi staðið í vegi fyrir erlendum fjárfestingum hér á landi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka