Kynningarfundur um nýjar leiðir til að efla sveitarstjórnarstigið verður á Hótel KEA á mánudag kl. 16:30. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Eyþing og Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum boða til fundarins.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað yfirlýsingu um að skipa samstarfsnefnd til að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta. Þessi fundur er haldinn í framhaldi af því.
Nefndin skal kynna sér stöðu mála í einstökum landshlutum og viðhorf sveitarstjórnarmanna og almennings til sameiningar. Að því loknu skal hún leggja fram drög um sameiningarkosti í hverjum landshluta og verði þau lögð fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2010 til umræðu og álits.
Að því loknu mun ráðherra leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar sveitarfélaga til ársins 2014 sem byggist á umræðum og áliti landsþingsins.
Á fundinum á KEA mun Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytja ávarp. Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður Eyþings talar um stöðu sameiningarmála á Norðurlandi eystra. Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings ræðir um reynsluna af sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.
Flosi Eiríksson, formaður samstarfsnefndar, mun kynna verkefnið „Nýjar leiðir í eflingu sveitarstjórnarstigsins. Sigurður Tómas Björgvinsson, ráðgjafi sameiningarnefndar, flytur ávarp: Lærum af reynslunni – nýjar áherslur í sameiningarmálum.
Fundarstjóri verður Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings.